Rafræn ráðgjöf og sálfræðileg meðferð fyrir unga tæknivædda einstaklinga sem nýta rafræna miðla

Therapy 2.0 Árangursríkar leiðir

Farðu á Therapy 2.0 árangursríkar leiðir

Eitt af markmiðum Therapy 2.0 verkefnisins er að veita innsýn í ýmsar aðferðir og þjónustu sem eru í boði í rafrænni ráðgjöf og meðferð sem notaðar eru víða um heim.Valdar voru 48 árangursríkar aðferðir sem kynntar eru.

Í upphafi voru valdar 100 vefsíður frá 25 Evrópulöndum og fimm löndum utan Evrópu. Sú rafræna þjónusta sem var boðin var metin af samstarfsaðilum og matið byggðist á því að skoða innihald, efni og markhópa. Teknar voru saman tölulegar upplýsingar og í sumum tilvikum er veitt þjónusta á fleiri en einu sviði og því getur prósentutala farið yfir 100%:

Tölulegar upplýsingar:

Markhópar: Fullorðnir eru markhópur flestra (84%) þeirra sem bjóða rafræna þjónustu í ráðgjöf eða meðferð. Einungis um 40% bjóða þjónustu til unglinga eða barna. Færri en 20% bjóða foreldrum, pörum, fagmönnum í ráðgjöf eða í heilsugeiranum möguleika á rafrænni þjónustu.

Hvers konar ráðgjöf eða meðferð er í boði?: Algengast er að boðin sé almenn ráðgjöf eða meðferð. Um þriðjungur sérhæfir þjónustuna í meðferð gegn þunglyndi (33%) og kvíða (29%). Einungis um 5-8% bjóða þjónustu til meðferðar á áráttuhegðun, átfíkn eða annars konar fíkn. Það sama gildir um þjónustu vegna samskiptaerfiðleika. Dæmi eru um þjónustu sem býður aðstoð við að ná tökum á streitu, kulnun, svefnvanda, kynferðislegri áreitni eða langvarandi veikindum. Einnig eru nokkur dæmi um að boðin sé rafræn náms- og starfsráðgjöf.

Tegundir rafrænnar þjónusta: Þau vefsvæði sem skoðuð voru veittu ýmis konar þjónustu. Um 57% veittu ráðgjöf og 48% buðu meðferðir. Nokkrar vefsíður veittu jafnframt annars konar þjónustu eins og markþjálfun, námsefni til þjálfunar á netinu og upplýsingasvæði en þau voru þó öll undir 20%.

Ekki kom fram greinanlegur munur hvað varðar markhópa, hvers konar ráðgjöf var í boði eða tegund rafrænnar þjónustu í þeim löndum sem skoðuð voru. Utan Evrópu fundust mjög góð dæmi um rafræna ráðgjöf í Kanada og Ástralíu sem hugsanlega má rekja til þess að þar er töluvert strjálbýli og skortur á hefðbundinni ráðgjöf eða meðferð og þörfin því mikil. Í Kanada var í boði góð rafræn þjónusta fyrir ráðgjafa, meðferðaraðila og aðra sérfræðinga. Í nokkrum Evrópulöndum, aðallega á Bretlandseyjum er hærra hlutfall rafrænnar þjónustu fyrir meðferðaraðila en ráðgjafa. Á Norðurlöndunum og í Balkanlöndunum má víða finna dæmi um rafræn vefsvæði þar sem boðin er þjónusta til upplýsinga um nám, störf og þjálfun.

Þær 100 vefsíður með rafræna þjónustu sem kynntar eru í þessu verkefni, voru skoðaðar sérstaklega með tilliti til gæða þjónustunnar. Þar var m.a. skoðað aðgengi fyrir markhópa, upplýsingar á vefsíðum og siðareglur eins og trúnaður við þá sem sækja þjónustuna. Einnig var skoðað hvaða menntun eða hæfni sá sem býður þjónustuna hefur og hvaða faglegu aðferðir voru í boði. Jafnframt var kannað hvort tæknibúnaður stóðst gæðaviðmið og hvort um var að ræða öruggt neytendavænt umhverfi.

Hér má finna þær 48 árangursríku aðferðir sem kynntar eru. Hægt er að nýta sér nokkra leitarmöguleika til að finna ólíkar aðferðir fyrir mismunandi markópa.